Handbolti

Karen: Erum búnar að vera á sama stað í 2-3 ár

Ingvi Þór Sæmundsson í Valshöllinni skrifar
Karen var langmarkahæst í íslenska liðinu með sjö mörk.
Karen var langmarkahæst í íslenska liðinu með sjö mörk. vísir/eyþór
Karen Knútsdóttir segir að íslenska kvennalandsliðið í handbolta skorti líkamsstyrk til að glíma við bestu lið heims.

„Mér finnst ég alltaf segja það sama eftir leiki, sóknarleikurinn varð okkur að falli. Það er auðvelt að standa í vörn og berjast og markverðirnir okkar eru góðir en við þurfum meiri hraða og snerpu til að geta gert eitthvað í sókninni,“ sagði Karen eftir tapið fyrir Frökkum í undankeppni EM 2016 í kvöld.

„Við þurfum að draga menn í okkur og vinna stöðuna maður á móti manni en því miður erum við bara langt á eftir þar,“ bætti Karen við.

Karenu finnst íslenska liðið hafa staðið í stað undanfarin ár og vill sjá breytingu þar á.

„Við þurfum að fara að lyfta og hlaupa til að geta unnið svona þjóðir eins og Frakka og til að ná lengra. Við erum búnar að vera á sama stað í 2-3 ár, þetta er flatt og það er einhvern veginn ekkert að gerast hjá okkur,“ sagði Karen.

Íslenska liðið komst á þrjú stórmót á skömmum tíma en nú eru fjögur ár liðin síðan það var síðast með í lokakeppni.

„Auðvitað varð mikil breyting á liðinu og við misstum marga sterka leikmenn. Þetta tekur alveg tíma en það eru fjögur ár síðan við komust síðast á stórmót og það hefur kannski ekki verið mikil og markviss uppbygging í gangi. Við getum ekki endalaust afsakað okkur. Mér finnst við þurfa að leggja aðeins meira á okkur.

„Okkur vantar því miður snerpu og styrk, eitthvað sem á að vera auðvelt að laga. Við erum með leikskilninginn og hæfileikana,“ sagði Karen. En finnst henni að Ísland þurfi fleiri leikmenn í atvinnumennsku erlendis?

„Ekkert endilega. Það er ekki atvinnumannaumhverfi hérna en þær þurfa kannski að æfa meira. Við erum rosalega fáar sem erum að spila á móti leikmönnum sem æfa tvisvar á dag. Við þurfum kannski að vilja ná lengra, leggja meira á okkur, ég líka. Við allar, íslenska landsliðið, þurfum að vera í betra formi,“ sagði Karen að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×