Fótbolti

Guardian heldur að Ragnar sé Kolbeinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnar Sigurðsson fær mikla athygli í umfjöllun Guardian.
Ragnar Sigurðsson fær mikla athygli í umfjöllun Guardian. Vísir/Getty
Ragnar Sigurðsson fær tvær myndir af sér í kynningu Guardian á íslenska landsliðinu í fótbolta.

Guardian hefur tekið saman mjög flotta úttekt á öllum leikmönnum úr öllum liðunum 24 sem taka þátt í Evrópumótinu í Frakklandi í sumar.  Umfjöllunin var birt í dag en í gær rann út frestur þjóðanna til að senda lokahópinn sinn til UEFA.

Hver leikmaður fær af sér mynd og stutta hnitmiðaða umfjöllun þar sem koma fram ýmsar áhugaverðar staðreyndir.  Það er hægt að sjá umfjöllun Guardian hér.

Blaðamenn frá viðkomandi þjóð hafa tekið af sér að skrifa um sína leikmenn og svo er einnig hjá Íslandi.

Það er þó ekki mynd af öllum leikmönnum íslenska liðsins í umfjöllun Guardian því Ragnar Sigurðsson kemur tvisvar fyrir. Kolbeinn Sigþórsson fær aftur á móti enga mynd af sér.

Ragnar Sigurðsson er talinn vera besti varnarmaðurinn í íslenska liðinu og Kolbeinn Sigþórsson hættulegasti sóknarmaðurinn. Þeir eru hinsvegar ekki nógi þekktir til að blaðamenn Guardian þekki þá á mynd.

Íslenska karlalandsliðið er að fara að keppa á sínu fyrsta stórmóti í Frakklandi og það er löngu ljóst að leikmenn liðsins eru ekki þeir þekktustu í Evrópu.

Það er nú samt svolítið vandræðalegt að Guardian skuli klikka á tveimur af þekktustu leikmönnum íslenska liðsins og tveimur af fimm sem hafa spilað í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×