Erlent

Fangavörður nasista dæmdur fyrir morð

Þórdís Valsdóttir skrifar
Fyrrum fangavörður nasista í Auschwitz hefur verið dæmdur fyrir þáttöku sína í 170 þúsund morðum.
Fyrrum fangavörður nasista í Auschwitz hefur verið dæmdur fyrir þáttöku sína í 170 þúsund morðum.
Reinhold Hanning, fyrrverandi fangavörður úr SS-sveitum nasista, var í gær dæmdur af dómstólum í Þýskalandi fyrir þátttöku í fjöldamorðunum í Auschwitz fangabúðunum.

Hanning er 94 ára og bundinn við hjólastól. Hann gegndi herþjónustu í Auschwitz þegar hann var átján ára, frá janúar 1942 til júní 1944. Hann hefur haldið því fram að hann hafi ekki tekið beinan þátt í morðunum.

Hanning hlaut fimm ára fangelsisrefsingu fyrir að hafa gerst samsekur um morð á 170 þúsund manns. Dómurinn tók tillit til aldurs hans, iðrunar og þess hversu langur tími hefur liðið frá því brotin áttu sér stað þegar refsingin var ákvörðuð.

Þeir sem komust lífs af úr fangabúðunum segja niðurstöðuna löngu tímabæran sigur. Tólf eftirlifendur báru vitni í réttarhöldunum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×