Fótbolti

Það féllu tár | Þorgrímur sýnir sjónarhorn strákanna okkar í mögnuðu myndbandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslendingar voru í sviðsljósinu á Geoffroy-Guichard leikvanginum í Saint-Étienne og ekki bara inn á vellinum heldur einnig upp í stúku.

Íslenska landsliðið fékk frábæran stuðning og það var mögnuð stund fyrir leik þegar allur íslensku stuðningsmannahópurinn söng lagið „Ég er kominn heim".

Þorgrímur Þráinsson er hluti af íslenska hópnum á Evrópumótinu og hann var með símann á lofti þegar allur íslenski áhorfendaskarinn söng þetta lag með svona eftirminnilegum hætti. Í myndbandi Þorgríms má sjá sjónarhorn strákanna okkar inn á vellinum þegar íslenska stúkan söng.

Lagið „Ég er kominn heim" er orðið einkennislag íslensku landsliðanna, lagið var sem dæmi sungið í stúkunni á Laugardalsvellinum þegar strákarnir tryggðu sér sæti á EM. Það var einnig sungið í stúkunni í úrslitakeppni EM í körfubolta í Berlín síðasta haust.

„Það féllu tár á vellinum í St.Etienne þegar hinir frábæru Íslendingar sungu lagið okkar fyrir leikinn. Stuðningurinn er miklu meira en ómetanlegur og leikmenn og við hinir erum óendanlega þakklátir. Þetta væri ekki hægt án ykkar. Þúsund kossar og faðmlög," skrifaði Þorgrímur Þráinsson á fésbókarsíðu sína.

Það er hægt að sjá myndbandið hér fyrir neðan og enginn verður ósnortinn að hlusta á íslensku stuðningsmennina syngja svona fallega á Geoffroy-Guichard leikvanginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×