Spennan er að magnast í Nice fyrir stórleik Íslands gegn Englandi í 16 liða úrslitum EM 2016 í fótbolta en hann hefst klukkan 19.00 að íslenskum tíma. Þetta verður í fyrsta sinn sem þjóðirnar mætast í mótsleik en tvisvar sinnum áður hafa þær mæst í vináttuleikjum.
Stuðningsmannasvæðið í Nice er við ströndina í þessari gullfallegu borg á suðurströnd Frakklands, sjálfri Rivierunni. Þar er um 25 gráðu hiti og væg gola til að kæla fólkið niður.
Með hverri mínútunni sem líður fjölgar stuðningsmönnum Englands og Íslands í Fan Zone-inu en þar má búast við mikilli stemningu þar til haldið verður á Riviera-völlinn þar sem leikurinn fer fram í kvöld.
Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, er búinn að vera á röltinu um Rivieruna í allan morgun og náði þessum skemmtilegu myndum af íslenskum stuðningsmönnum.
Þar má finna íslenska ofurhetju sem passar upp á mannskapinn og tvo helflúraða töffara að fá sér íspinna í sólinni í Nice. Lífið verður ekki mikið betra en það. Myndirnar má sjá hér að neðan.
Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).