Skoðun

Fangelsismálayfirvöld stýrast af dómgreindarleysi

Vilhelm Jónsson skrifar
Tæplega myndi nokkurs staðar í siðmenntuðum réttarríkjum, þar sem bankamenn hefðu tæmt banka innan frá, öllum verið stefnt saman í opið fangelsi og þeir afplánað síðan 20% af refsingu í anda sýndarmennsku. Með ólíkindum og vafasamt er að fangelsismálastjóri/stjórn geti að eigin geðþótta ákveðið með hvaða hætti refsingar séu teknar út, þvert á fallna dóma, ásamt því hvenær og hverjir ljúki afplánun á skemmri tíma og með öðrum forréttindum.

Ný fangelsisbygging á Hólmsheiði hefur að geyma 56 klefa þar sem látið hefur vera stjórnast af flott­ræfilshætti þvert á efnahagslega getu. Það er umhugsunarefni að yfirvöld skuli réttlæta framkvæmd upp á þrjá miljarða sem leysir síðan takmarkaðan vanda. Lauslega má áætla að hver klefi ásamt annarri aðstöðu leggi sig á ríflega fimmtíu miljónir. Forgangsröðun er röng og fangelsið er alltof dýrt ásamt rekstrar- og fjármagnskostnaði. Höfuðvandinn er enn til staðar þar sem lokað er öðrum afplánunarrýmum sem nemur helmingi þessarar byggingar.

Stjórnvöld ásamt ríkisstofnunum eru í engum tengslum við efnahagslega getu og þurfa að fara að gera sér grein fyrir að sjúkir og þeir sem minna mega sín gjalda of oft með lífi sínu vegna rangrar forgangsröðunar.

Undangengin ár hafa biðlistar eftir fangelsisvist verið ca. 500 manns og sá biðlisti lengist lítið þar sem dómar fyrnast með einum og öðrum hætti. Aðeins lítill hluti þeirra sem hafa fengið dóm hafa framið ofbeldis- eða kynferðisbrot. Stærsti hópurinn er með dóm vegna umferðarlagabrota eða nytjatöku sem ekki er hægt að kalla til afplánunar vegna plássleysis sem láta þar að leiðandi ógert að að greiða sínar samfélagslegar skuldir.

Meirihluti biðlistans uppfyllir líklega skilyrði til að afplána dóm sinn með vægari hætti eða samfélagsþjónustu. Flestir af þessum einstaklingum sem bíða eftir að sitja af sér viðkomandi dóm myndu síður vilja afplána refsingu í rammgirtu fangelsi, jafnvel þótt það sé í anda fimm stjörnu hótels.

Ítrekað er búið að benda á ýmsar ódýrar leiðir til að uppræta biðlista þeirra sem bíða afplánunar á einfaldan og ódýran hátt. Hefði t.d. verið hægt að leysa sárasta vandann með gámabúðum sem hefði t.d. mátt setja innan girðingar á Litla-Hrauni, sem fangelsismálayfirvöldum þótti ekki boðlegt. Þessar sömu vinnubúðir eru nýttar í dag sem hótel ásamt því að hýsa skrifstofur lækna við Landspítalann.

Ógæfumenn

Meginþorri þeirra sem afplána ítrekaða refsivist eru fátækir, heimilislausir ógæfumenn sem dómstólar hafa ómældan kjark til að vísa umsvifalaust og án málalenginga í rammgirt fangelsi, enda ekki hvítflibbar. Vart getur talist eðlilegt eða ásættanlegt að smákrimmi sem hnuplar einhverju lítilræði þurfi að kosta samfélagið fleiri milljónir.

Síbrotamaður hefur sjaldnast eftir refsivist að einhverju að hverfa og á litla sem enga möguleika á að fóta sig á ný í lífinu. Eðlilegra væri að vistun og eftirmeðferð ætti sér stað með hagkvæmari og uppbyggilegri hætti, jafnvel þó svo um harðan fíkil sé að ræða. Þó svo frelsissvipting verði að eiga sér stað, þá eru flestir hverjir meðvitaðir um að þurfa að taka út sína refsingu þótt ekki sé það innan rammgirtra fangelsisveggja, og myndu láta ógert að útskrifa sig sjálfir. Mun eðlilegra hefði og væri að opna fangelsi með kostnaðarminni hætti, t.d. í anda Kvía­bryggju, sem myndi kosta innan við 30% af núverandi nýbyggingu ásamt minni rekstrarkostnaði.

Jafnvel þótt fangi útskrifi sig sjálfur verða yfirvöld að taka meiri hagsmuni fram yfir minni og gera sér grein fyrir að oft er um óhörðnuð og illa áttuð ungmenni að ræða. Vart getur talist uppbyggilegt að vista brotna og illa áttaða einstaklinga í rammgirtu fangelsi eins og harðsvíraða glæpamenn.

Yfirvöld gætu náð milljörðum í ríkis­sjóð af ógreiddum sektargreiðslum við innköllun hundraða manna, sem hafa fengið dóm til afplánunar, á einfaldan hátt, væri látið af þröngsýni og röngu verklagi. Tæplega getur talist eðlilegt að afbrotamaður sé með refsingu hangandi yfir sér árum saman vegna úrræðaleysis fangelsismálayfirvalda. Til lítils er að dæma afbrotamenn sem er síðan ekki fylgt eftir þar sem það er ekki hægt að fullnusta dóma vegna pláss- og fyrirhyggjuleysis og síðan fyrnast dómar í skjóli dráttar. Þessi háttur er aðeins til að fleiri sjá sér leik á borði að fara á skjön við lög og reglur ásamt því að hunsa sektargreiðslur sem þeir myndu frekar borga en þurfa að hefja afplánun.

Ef fangelsismálayfirvöldum er svona annt um skjólstæðinga sína sem sumir hverjir eru ógæfu- og síbrotamenn þá hefði verið eðlilegra að veita fé til eftirmeðferðar til að viðkomandi einstaklingar næðu festu til að fóta sig áfram í lífinu, í stað þess að sækja í fyrri iðju. Svo vitnað sé í orð fangelsismálastjóra er engin uppbyggileg vinnuaðstaða fyrir fanga fyrir hendi á Hólmsheiði ásamt lítilli geðheilbrigðisaðstoð vegna fjárskorts.

Slík meðferð verður ekki fengin með stífbónuðum og rammgerðum flísalögðum steypuklumpi, gaddavírsgirðingum ásamt flatskjáum og róandi geðlyfjum. Nokkuð ljóst er að hvítflibbar ásamt fleirum munu með sinni hógværð gera sér að góðu íburðarminni húsakynni en Hólmsheiði hefur að geyma.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×