Fótbolti

Telur Sanches vera 23 eða 24 ára

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sanches fagnar í leik á EM.
Sanches fagnar í leik á EM. vísir/getty
Franska þjálfaragoðsögnin Guy Roux trúir því ekki að Portúgalinn Renato Sanches sé 18 ára gamall.

Sanches hefur slegið í gegn á EM í Frakklandi en þetta mikla efni samdi við FC Bayern á dögunum en Man. Utd var á meðal þeirra liða sem vildu fá hann.

Roux, sem þjálfaði Auxerre í meira en 40, ár var í viðtali við íþróttamiðil frá Rúmeníu þar sem hann efast um raunverulegan aldur leikmannsins.

„Hann segist vera 18 ára gamall en ég held við verðum að skoða það betur. Fæðingardagur hans var ekki staðfestur fyrr mörg ár voru liðin frá fæðingu hans. Skráður fæðingardagur hans er ekki réttur. Ég get fullvissað þig um að hann er 23 eða 24 ára gamall,“ sagði Roux gamli grjótharður.

Roux var þarna að vitna í að portúgalskt dagblað hafði fundið út að fæðingardagur hans hefði ekki verið staðfestur fyrr en 2002. Ástæðan sem var uppgefin er að foreldrar hans hafi skilið er hann var nýfæddur.

Sanches sló í gegn með Benfica síðasta vetur og hefur verið frábær í liði Portúgal á EM. Hann hefur sjálfur svarað þessum ásökunum með aldurinn.

„Ég ólst upp í Portúgal. Ég eyddi 10 árum með Benfica. Hvernig get ég verið 25 ára? Það er ekkert á bak við þetta sem fólk er að segja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×