Fótbolti

Ronaldo fann til með Messi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Messi átti erfitt með tilfinningar sínar í leikslok.
Messi átti erfitt með tilfinningar sínar í leikslok. vísir/getty
Cristiano Ronaldo segir að það hafi verið erfitt að horfa upp á Lionel Messi gráta eftir úrslitaleik Copa America.

Þá tapaði Argentína gegn Síle í úrslitaleik. Leikurinn fór í vítaspyrnukeppni þar sem Messi klúðraði sínu víti.

Þetta var í fjórða sinn sem Messi tapar úrslitaleik með Argentínu og hann grét eftir leik. Messi lét ekki þar við sitja heldur lýsti því yfir eftir leikinn að hann væri hættur að spila með landsliðinu þó svo hann sé aðeins 29 ára.

„Messi tók erfiða ákvörðun og fólk verður að reyna að skilja hana. Hann er ekki vanur því að tapa og lenda í vonbrigðum á vellinum. Að klúðra víti gerir leikmann ekki lélegan,“ sagði Ronaldo.

„Það var sárt að sjá Messi gráta eftir leikinn og ég vona að hann snúi aftur í landsliðið því ég held að hann þurfi á því að halda.“

Argentína hefur ekki unnið stóran titil í 23 ár og biðin lengist þó svo liðið hafi átt Lionel Messi síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×