Erlent

Forsætisráðherra Tyrklands segir þjóðina hafa brugðist hetjulega við í gær

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Binali Yildrim, forsætisráðherra Tyrklands, þakkaði þjóðinni.
Binali Yildrim, forsætisráðherra Tyrklands, þakkaði þjóðinni. Vísir/Getty
Binali Yildrim, forsætisráðherra Tyrklands, ávarpaði þjóð sína í morgun. Hann sagði að núverandi stjórnvöld hefðu náð fullri stjórn á ástandinu og að enn væri verið að handtaka grunaða. Nú þegar hafa yfir fimmtán hundruð verið handteknir.

Yildrim segir að þeim sem stóðu að tilraun til valdaráns í landinu í gærkvöldi verði refsað. Um 190 eru látnir, þar af 104 uppreisnarmenn.

Sjá hér: Hvers vegna réðst herinn til atlögu og hvað klikkaði?

Dauðarefsingin hefur ekki verið lögleg í Tyrklandi síðan árið 2002 en nú hafa umræður um að innleiða dauðarefsingu aftur í lög til þess að geta tekið af lífi þá sem stóðu að tilrauninni gert vart við sig. Fjölmargir hafa birt tíst á Twitter með myllumerkinu #Idamistiyorum eða #égvildauðarefsinguna.

Yildrim forsætisráðherra sagði valdaránstilraunina svartan blett á lýðræðissögu Tyrklands. Hann fagnaði þó borgurum landsins sem þustu út á göturnar til stuðnings sitjandi forseta. 

Fólk þusti út á götur eftir að Erdogan ávarpaði þjóð sína í gegnum Facetime.vísir/getty
Recep Tayyip Erdogan, núverandi forseti landsins og jafnframt sá fyrsti sem er lýðræðislega kjörinn, ávarpaði þjóð sína í nótt í gegnum snjallsíma en hann var í fríi á Marmaris þegar aðgerðir uppreisnarmanna hófust. Hann fordæmdi aðgerðirnar og hvatti þjóðina til þess að fjölmenna á götum úti og stöðva uppreisnina. 



Yildrim sagði þjóðina hafa brugðist hetjulega við bóninni til stuðnings lýðræðinu. Hann hvatti fólk til þess að halda út á göturnar að nýju í dag og kvöld.

„Allir ættu að skilja það nú að enginn getur krukkað í vilja fólksins þökk sé þessum borgurum. Það verður aldrei hægt að yfirbuga styrk og vilja fólksins okkar,“ sagði forsætisráðherrann og bætti við að þjóðin hefði sýnt mikinn styrk.

Tyrkneska þingið mun hittast í dag til þess að ræða uppreisnina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×