Handbolti

Guðmundur hafði betur á móti Degi í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins í handbolta.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins í handbolta. Vísir/Getty
Danska handboltalandsliðið vann sex marka sigur á Evrópumeisturum Þjóðverja í kvöld í undanúrslitum á æfingamóti í Strassbourg í Frakklandi. Bæði lið eru að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana í Ríó sem hefjast í næsta mánuði.

Danir unnu leikinn 25-19 og mæta Ólympíumeisturum Frakka í úrslitaleiknum á sama stað á morgun. Þjóðverjar spila aftur á móti við Egypta um þriðja sætið.

Þjóðverjar komust í 1-0 og 2-1 en eftir það voru Danir með frumkvæðið allan leikinn. Danska liðið komst í 8-3, 10-6 og var 12-8 yfir í hálfleik.

Danir náðu síðan sex marka forystu fljótlega í seinni hálfleiknum og var með góð tök á leiknum eftir það. Mikkel Hansen og Mads Mensah Larsen voru allt í öllu í sóknarleik danska liðsins og Niklas Landin varði vel í danska markinu.

Handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum hefst 7. ágúst næstkomandi. Danir eru þar í riðli með Frakklandi, Króatíu, Túnis, Katar og Argentínu. Þjóðverjar eru aftur á móti í riðli með Póllandi, Svíþjóð, Slóveníu, Brasilíu og Egyptalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×