Erlent

Lið Erdogans fer hamförum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Níutíu og níu herforingjar voru í gær ákærðir fyrir aðild að hinni misheppnuðu valdaránstilraun um helgina. Þá hefur öllum vísinda- og fræðimönnum verið bannað að yfirgefa landið.

Alls hafa nú meira en 50 þúsund manns verið handteknir eða reknir úr starfi í þessum hreinsunum, sem nú þegar eru komnar í flokk með þeim víðtækustu í sögunni.

Þær beinast fyrst og fremst gegn liðsmönnum Gülen-hreyfingarinnar, sem er ein stærsta trúarhreyfing Tyrklands með milljónir liðsmanna og víðtæka starfsemi við rekstur á skólum, sjúkrahúsum, fjölmiðlum og fleiri lykilstofnunum landsins.

Leiðtogi hennar, Fetúlla Gülen, býr í Bandaríkjunum og þverneitar að hafa haft nokkuð með byltingartilraunina að gera. Þeir Erdogan voru nánir bandamenn allt þangað til fyrir nokkrum árum, þegar embættismenn hófu rannsókn á flokki Erdogans og spillingarmálum sem tengdust honum.

Andrew Gardner, sérfræðingur mannréttindasamtakanna Amnesty International í málefnum Tyrklands, segir hreinsanirnar í Tyrklandi vera svo víðtækar að þess finnist varla dæmi annars staðar:

„Þótt það sé skiljanlegt og rétt að stjórnin vilji rannsaka og refsa þeim sem bera ábyrgð á hinni blóðugu valdaránstilraun, þá verða þau að hlíta reglum réttarríkisins og virða tjáningarfrelsið,“ segir hann. „Tyrkneska þjóðin er enn að jafna sig á hinum skelfilegu atburðum helgarinnar og þá er mjög brýnt að fjölmiðlafrelsi og óheft dreifing upplýsinga sé varin, frekar en kæfð.“

Í gær hóf Wikileaks birtingu þúsunda tölvupósta frá AKP, stjórnmálaflokki Erdogans forseta. Viðbrögð stjórnvalda í Tyrklandi voru þau að loka strax fyrir aðgang að öllum Facebook-síðum.

Alls birti Wikileaks í gær nær 300 þúsund tölvupósta, sem flokkurinn sendi frá 2010 þar til í byrjun júlí 2016. Wikileaks segir framhald verða á birtingunni, þetta sé aðeins hluti póstanna. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Hreinsanirnar halda áfram í Tyrklandi

Stjórn Erdogans Tyrklandsforseta hefur rekið fimmtán þúsund skólastarfsmenn, níu þúsund lögreglumenn og þrjú þúsund dómara í kjölfar valdaránstilraunar hersins um helgina. Fleiri þúsund hafa verið handteknir. Tugir útvarps- og sjónv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×