Handbolti

Strákarnir mæta Frökkum og Pólverjum í milliriðli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku strákarnir eru enn taplausir á EM.
Íslensku strákarnir eru enn taplausir á EM. mynd/ehf
Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri er komið í milliriðil á EM í Danmörku.

Íslensku strákarnir gerðu 28-28 jafntefli við Spánverja í lokaleik B-riðils í gær.

Spánn vann riðilinn á hagstæðari markatölu en bæði lið tóku eitt stig með sér í milliriðil.

Þar hitta íslensku strákarnir fyrir Frakka og Pólverja sem voru í A-riðli.

Frakkar unnu A-riðil með fullu húsi stiga og tóku því tvö stig með sér í milliriðilinn. Pólverjar eru aftur á móti stigalausir.

Ísland mætir Póllandi í fyrri leiknum í milliriðli klukkan 12:00 á morgun. Á miðvikudaginn mæta íslensku strákarnir svo Frakklandi á sama tíma.

Frakkar eru með gríðarlega sterkt lið en þeir urðu heimsmeistarar U-19 ára í Rússlandi í fyrra. Íslenska liðið lenti þá í 3. sæti. Pólverjar komust ekki upp úr sínum riðli á því móti en þrátt fyrir það eru þeir sýnd veiði en ekki gefin.

Danmörk, Noregur, Þýskaland og Króatía skipa hinn milliriðilinn. Þjóðverjar og Norðmenn tóku tvö stig með sér en Danir og Króatar eru án stiga.


Tengdar fréttir

Stórir, þungir og líklegir til afreka í Danmörku

Karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri hefur leik á EM í Danmörku í dag. Sama lið vann stórmót í fyrra og hafnaði í þriðja sæti á HM í Rússlandi. Öðruvísi leikmenn en hafa sést áður.

Strákarnir byrja á sigri

Íslenska handboltalandsliðið skipað leikmönnum 20 ára og yngri vann eins marks sigur, 32-31, á Rússum í fyrsta leik sínum í B-riðli á EM í Danmörku í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×