Enski boltinn

Pogba kominn til Manchester United | Dýrasti leikmaður heims

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paul Pogba í búningi Manchester United.
Paul Pogba í búningi Manchester United. Mynd/Twitter-síða Manchester United
Manchester United tilkynnti á heimasíðu sinni í kvöld að félagið væri búið að semja við franska landsliðsmanninn Paul Pogba til næstu fimm ára.

Pogba kemur frá Juventus á Ítalíu sem staðfestir að hann hafi verið seldur fyrir 105 milljónir evra en mögulegt er að fimm milljónir bætast við ef ákveðin skilyrði verða uppfyllt.

Þetta gera samanlagt 110 milljónir evra, jafnvirði 14,6 milljarða króna. Pogba slær þar með við kaupum Real Madrid á Gareth Bale fyrir þremur árum en spænska liðið greiddi þá 100 milljónir evra fyrir Walvesverjann.

Félagaskipti Pogba hafa verið yfirvofandi í allt sumar en í kvöld fékkst það loksins staðfest að þessi 23 ára kappi væri kominn aftur á Old Trafford, þar sem hann lék sem táningur frá 2009 til 2012.

„Ég er hæstánægður með að vera kominn til United,“ sagði Pogba. „Það er félag sem hefur ávallt átt sér sess í mínu hjarta og ég hlakka mikið til að byrja að vinna með Jose Mourinho.“

Pogba lék með Juventus í fjögur ár, alls 124 leiki og skoraði í þeim 28 mörk. Hann á 38 landsleiki að baki og og var í lykilhlutverki þegar Frakkland komst í úrslitaleik EM í sumar.

„Hann er 23 ára gamall og á nú tækifæri á að eigna sér stöðu sína í liðinu í langan tíma. Hann er ungur og mun halda áfram að bæta sig. Hann á möguleika á að vera við hjarta þessa félags í áratug eða lengur,“ sagði Jose Mourinho.

X




Fleiri fréttir

Sjá meira


×