Fótbolti

Basel og Lokeren með sigra

Anton Ingi Leifsson skrifar
Birkir í leik með Basel á síðustu leiktíð.
Birkir í leik með Basel á síðustu leiktíð. vísir/getty
Birkir Bjarnason og félagar í Basel byrja vel í svissnesku úrvalsdeildinni þetta árið, en þeir hafa unnið þrjá fyrstu leikina.

Í dag vann Basel 3-2 sigur á Luzern. Marek Suchy kom Basel yfir á fjórðu mínútu, en Jamir Hyka jafnaði fyrir Luzern á 18. mínútu og kom þeim svo yfir á 30. mínútu.

Þannig stóðu leikar allt þangað til á 70. mínútu þegar varamaðurinn Marc Janko jafnaði metin. Janko var svo aftur á ferðinni níu mínútum síðar þegar hann kom Basel í 3-2 og þannig urðu lokatölur.

Basel er því með níu stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar, en Birkir spilaði fyrstu 62 mínútur leiksins.

Annað Íslendingalið, Lokeren, var einnig í eldlínunni í dag, en þeir unnu 3-0 sigur á Westerlo í belgísku úrvalsdeildinni.

Tom De Sutter, Mijat Maric og Sergiy Bolbat skoruðu mörk Lokeren, en þeir léku einum fleirri frá því á 45. mínútu þegar Kenneth Schuermans fékk að líta rauða spjaldið.

Sverrir Ingi Ingason og Ari Freyr Skúlason spiluðu báðir allan leikinn fyrir Lokeren sem er með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×