Enski boltinn

Zlatan tryggði United Samfélagsskjöldinn | Sjáðu mörkin

Anton Ingi Leifsson skrifar
Zlatan í eldlínunni.
Zlatan í eldlínunni. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic tryggði Manchester United 2-1 sigur gegn Leicester í leiknum um Samfélagsskjöldinn, en markið kom sjö mínútum fyrir leikslok.

Þetta er fyrsti titill Manchester United undir stjórn Jose Mourinho, en hann tók við liðinu af Louis van Gaal í sumar. Þetta var einnig fyrsta mark Zlatan í alvöru leik.

Englandsmeistararnir voru í tvígang nálægt því að komast yfir í sömu sókninni, en Shinji Okazaki átti meðal annars skalla í slána. Nær komust þeir ekki í bili.

Eftir hálftíma leik kom fyrsta markið. Jese Lingard labbaði þá í gegnum vörn Leicester og lagði boltann undir Schmeichel sem stóð varnarlaus í marki Leicester. 1-0 fyrir bikarmeisturunum og þannig var staðan í hálfleik.

Leicester gerði tvöfalda breytingu í hálfleik og það færðist smá líf yfir lið Leicester sem jafnaði svo á 52. mínútu þegar Maraoune Fellaini gerði sig seka um ömurleg mistök. Vardy þakkaði pent fyrir sig og jafnaði metin með auðveldu marki.

Allt leit út fyrir að framlengja þyrfti leikinn eða allt þangað til á 83. mínútu þegar röðin var komin að hinum sænska Zlatan Ibrahimovic. Antonio Valencia fékk boltann úti á hægri kantinum, gaf hann fyrir markið þar sem Zlatan skallaði boltann í fjærhornið og kom United í 2-1.

Fleiri urðu mörkin ekki og sænski snillingurinn því hetja United í sínum fyrsta almennilega leik á Englandi. Ekki amaleg byrjun það, en enska deildin hefst svo um næstu helgi.

Leicester 0-1 Man Utd Leicester 1-1 Man Utd Leicester 1-2 Man Utd



Fleiri fréttir

Sjá meira


×