Handbolti

Ungu strákarnir okkar völtuðu yfir Pólverja

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Strákarnir á leið inn í klefa í hálfleik.
Strákarnir á leið inn í klefa í hálfleik. mynd/instagram-síða hsí
Íslenska U-20 ára liðið hóf milliriðilinn á EM með miklum látum í dag.

Þá mættu strákarnir liði Pólverja og gjörsamlega pökkuðu þeim saman, 36-24.

Íslenska liðið tók völdin á vellinum strax í upphafi. Komst í 3-0 og svo skömmu síðar var staðan orðin 9-3. Er fyrri hálfleikur var allur var munurinn sjö mörk, 21-14.

Strákarnir létu kné fylgja kviði í síðari hálfleik. Héldu áfram að hamra á Pólverjunum, juku forskotið og lönduðu öruggum sigri.

Ísland og Spánn komu inn í milliriðilinn með eitt stig eftir að hafa gert jafntefli í riðlakeppninni. Frakkar komu aftur á móti með tvö stig en Pólverjar voru stigalausir.

Íslenska liðið er því komið á topp riðilsins, í það minnsta tímabundið. Þessi leikur mátti alls ekki tapast og strákarnir gerðu engin mistök.

Strákarnir spila svo við Frakka á morgun og sá leikur verður upp á sæti í undanúrslitum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×