Enski boltinn

Mourinho: Þetta er hátindur ferilsins

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mourinho er réttur maður á réttum stað.
Mourinho er réttur maður á réttum stað. vísir/getty
Jose Mourinho mun stýra Man. Utd í fyrsta sinn á heimavelli í kvöld er liðið tekur á móti Southampton.

Þrátt fyrir erfiða tólf mánuði þar sem Mourinho fór frá því að vinna ensku deildina með Chelsea yfir í að vera rekinn síðasta desember þá er hann brattur.

„Ég hef verið hjá nokkrum stærstu félögum heims en þetta er hátindur ferilsins. Hann kemur samt snemma á mínum ferli því sem stjóri er ég mjög ungur. Mín bestu ár í bransanum eru eftir,“ segir Mourinho.

„Ég var ekki að grínast er ég sagði að ég ætti 15 ár eftir. Þá verð ég orðinn 68 ára gamall. Ég sé vel fyrir mér að ég verði í þessum bransa þar til ég verð sjötugur.“

Mourinho hefur alla tíð reynst Man. Utd óþægur ljár í þúfu. Hann keppti gegn liðinu 20 sinnum en tapaði aðeins tvisvar.

„Þegar ég var andstæðingur United tengdi ég vel við stuðningsmenn félagsins. Það var aldrei neitt vesen og ég hagaði mér vel. Ég reyndi alltaf að vera ljúfur. Nú get ég labbað út á þennan völl og beðið um stuðning.“

Leikurinn hefst klukkan 19.00 í kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×