Enski boltinn

Aron á framtíð hjá Cardiff

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron í leiknum í gær en í honum kom fyrsti sigur Cardiff á leiktíðinni.
Aron í leiknum í gær en í honum kom fyrsti sigur Cardiff á leiktíðinni. vísir/getty
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var loksins í byrjunarliði Cardiff City í gær og virðist þrátt fyrir allt eiga framtíð hjá félaginu.

Aron Einar hefur verið orðaður við Derby County og Ipswich Town en það er alls óvíst að hann fari nokkuð.

Akureyringurinn hefur alltaf verið vinsæll hjá stuðningsmönnum Cardiff en miðað við móttökurnar í gær virðist hann vera orðinn enn vinsælli eftir frammistöðu sína á EM.

Það voru mikil læti er hann tók löngu innköstin sín, það var vel klappað fyrir vinnunni hans á miðjunni og svo var að sjálfsögðu hjólað í víkingaklapp inn á milli. Hvað annað?

„Aron er virkilega mikilvægur leikmaður fyrir okkar lið,“ sagði stjóri liðsins, Paul Trollope.

„Hann kom úr fríinu fullur sjálfstrausts eftir EM. Þar sem hann kom seint til baka út af EM þá missti hann af mörgum mínútum í undirbúningnum. Ég var mjög ánægður með hans framlag í leiknum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×