Enski boltinn

Torres: Liverpool varð að finna fórnarlamb

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Torres í leik með Liverpool.
Torres í leik með Liverpool. vísir/getty
Spánverjinn Fernando Torres er ekki ánægður með það að hann hafi verið látinn líta út eins og svikari er hann fór frá Liverpool til Chelsea.

Torres var gríðarlega vinsæll hjá stuðningsmönnum Liverpool en hann skoraði 65 mörk í 102 leikjum fyrir félagið.

Hann fór svo til Chelsea í janúar árið 2011 fyrir 50 milljónir pund. Það var met á þeim tíma.

Í nýrri bók sem Simon Hughes skrifaði útskýrir Torres hvað hafi gerst á bak við tjöldin er hann fór frá Liverpool til Chelsea.

Torres var mjög ósáttur við hvaða stefnu Liverpool ætlaði að fara er FSG tók yfir félagið. Torres fór á fund félagsins og spurði hvort að lykilmenn yrðu nú seldir. Hann varð svo ósáttur er Javier Mascherano var seldur til Barcelona fljótlega eftir þann fund.

„Nýju eigendurnir vildu eyða peningum sínum í að kaupa unga leikmenn. Byggja upp nýtt lið. Þá fór ég að hugsa að það tæki tíma. Allt frá tveimur upp í tíu ár. Ég var 27 ára og hafði ekki tíma fyrir það. Ég vildi vinna titla. Nú fimm árum síðar er Liverpool enn að byggja upp,“ segir Torres í bókinni.

Spánverjinn viðurkennir að hafa rætt við þáverandi stjóra, Kenny Dalglish, um möguleikann á að fara. Hann segir þó að þegar sá fundur hafi farið fram hafi viðræður á milli Chelsea og Liverpool þegar hafist.

Í kjölfarið var því lekið frá Liverpool í fjölmiðla að Torres hefði farið fram á að vera seldur frá félaginu. Þá segir Torres að allt hafi breyst.

„Ég var úthrópaður svikari. Það var alls ekki þannig. Liverpool gat ekki viðurkennt að það væri að gera mistök í sinni stefnu með liðið. Það varð að finna fórnarlamb.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×