Enski boltinn

Aron Einar: Þreifingar hér og þar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson segir óvíst hvort hann verði áfram í herbúðum Cardiff City þegar félagaskiptaglugginn lokar um næstu mánaðarmót.

Aron Einar var ekki fastamaður í liði Cardiff á síðasta tímabili og kom ekkert við sögu í fyrstu tveimur deildarleikjum liðsins á þessu tímabili.

Aron Einar lék nánast hverja einustu mínútu með íslenska landsliðinu á EM í Frakklandi og segir að það sitji enn í honum.

„Ég fékk kannski of lítið frí, að mér fannst, því það tekur víst smá tíma að dempa sig niður eftir svona mikil átök,“ sagði Aron Einar í samtali við Hjört Hjartarson í útvarpsþættinum Akraborginni í dag.

„Ég ræddi við þjálfarann um þetta. Flestir vita að ég spilaði haltur úti í Frakklandi og maður var á handbremsunni í sumum leikjum. Það var svolítið erfitt að byrja aftur að æfa, hlaupa og fara í píptest,“ bætti Aron Einar við.

Hann segir að þreytan eftir EM hafi kannski haft áhrif á þá ákvörðun Paul Trollope, knattspyrnustjóra Cardiff, að geyma hann á bekknum í fyrstu tveimur deildarleikjum tímabilsins.

„Hann nefnir að hann sé aðeins að hlífa mér. En þá skil ég ekki alveg af hverju ég var að koma svona snemma út,“ sagði landsliðsfyrirliðinn sem gat lítið sagt um framtíð sína, hvort hann verði áfram leikmaður Cardiff eða rói á önnur mið.

„Það eru þreifingar hér og þar eins og gengur gerist í fótboltanum. Þolinmæði er lykilatriði. Ég er ekkert að stressa mig eins og er. Þeir vita mína stöðu og ég veit hvar ég stend gagnvart þeim. Það verður bara að koma í ljós við lok gluggans hvar ég verð,“ sagði Aron Einar sem á tvö ár eftir af samningi sínum við Cardiff.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×