Myndbandsverk Kristjönu var frumsýnt á framhlið Hótel Belmond Copacabana í Ríó í Brasilíu 31. júlí en í því er flögrandi fiðrildum í fánalitum þátttökulandanna á Ólympíuleikunum varpað á húsið.

Mikill fjöldi fólks var viðstaddur frumsýninguna en síðan hefur fólk safnast saman á ströndinni fyrir framan hótelið til að virða fyrir sér verk dagsins.
Þá hafa yfir tvær milljónir manna skoðað myndband af verkinu sem Kristjana deildi á Facebook-síðu sinni í upphafi mánaðar.
Belmond Copacabana hótelið í Ríó er hluti af Belmond-hótelkeðjunni sem rekur lúxushótel um allan heim. Hótelið er þekkt kennileiti í Ríó og ein mest myndaða bygging borgarinnar.
Gluggaverkin á bakhlið hótelsins sýna hinar ýmsu stórborgir víðsvegar um heim sem hafa haldið Ólympíuleikana hingað til með augum Kristjönu. Má þar nefna London, Aþenu, Ríó og Tókýó, þar sem leikarnir verða haldnir 2020. Innandyra hanga svo verk eftir hana í móttökunni og víðar.

Í dag rekur hún eigið stúdíó í London og selur myndir, ýmiss konar textíl og myndskreytt húsgögn auk þess sem von er á fatalínu í haust.
Verk Kristjönu hafa víða vakið athygli og hefur hún þegar unnið til fjölda verðlauna. Má þar nefna D&AD, Clio og Grand Prix verðlaunin.
Sumar af vörum Kristjönu fást í Kiosk á Laugarvegi og Kraumi i Bankastræti. Sjá nánar hér.
