Fótbolti

Baulað á Hummels

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hummels í baráttunni gegn sínum gömlu félögum í gær.
Hummels í baráttunni gegn sínum gömlu félögum í gær. vísir/getty
Stuðningsmenn Dortmund tóku ekki vel á móti sínum gamla fyrirliða, Mats Hummels, er hann spilaði með Bayern gegn Dortmund í gær.

Þá fór meistaraleikurinn fram á milli Bayern og Dortmund. Bayern vann leikinn, 2-0, og Hummels er því búinn að vinna sinn fyrsta bikar með Bayern. Arturo Vidal og Thomas Müller skoruðu mörkin.

Stuðningsmenn Dortmund bauluðu í hvert einasta skipti sem Hummels kom við boltann. Þeir eru skiljanlega enn fúlir að hann hafi gengið í raðir erkifjendanna.

Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern, skildi þó ekkert í þessari hegðun.

„Vanþakklæti eru laun heimsins. Það er fáranlegt að maður sem hafi gefið félagi allt sem hann á í mörg ár sé rakkaður svona niður. Það er gríðarlega svekkjandi,“ sagði Rummenigge.

Leikurinn fór fram á heimavelli Dortmund og Hummels viðurkenndi að það hefði verið skrítið að spila þar í öðru en gulum búningi.

„Tilfinningarnar voru að bera mig ofurliði fyrir leik. Þetta var ótrúlega skrítið,“ sagði Hummels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×