Fótbolti

Hjörtur opnaði markareikninginn í öruggum sigri Bröndby

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Hjörtur í leik með u21-árs landsliði Íslands.
Hjörtur í leik með u21-árs landsliði Íslands. Vísir/Valli
Það tók Hjört Hermannsson ekki langan tíma að opna markareikning sinn hjá Bröndby en hann skoraði annað mark Bröndby í 4-0 sigri á SönderjyskE á heimavelli í aðeins þriðja leik sínum fyrir félagið.

Hjörtur sem gekk til liðs við Bröndby frá PSV í sumar var í byrjunarliði Bröndby þriðja leikinn í röð og bætti við öðru marki Bröndby aðeins tveimur mínútum eftir að Teemu Pukki kom Bröndby yfir.

Kamil Wilczek bætti við þriðja marki Bröndby á 53. mínútu og Pukki bætti við marki á 69. mínútu. Bröndby situr eftir leikinn í 2. sæti, tveimur stigum á eftir FCK en liðið er enn taplaust eftir fimm umferðir.

Rúnar Alex Rúnarsson fékk á sig þrjú mörk í 1-3 tapi Nordsjaelland gegn Odense á útivelli en þetta var fjórða tap Nordsjaelland í röð eftir 4-0 sigur í fyrstu umferð. Fyrir vikið er liðið búið að síga niður töfluna og komið í 11. sæti.

Í Svíþjóð var Viðar Örn Kjartansson tekinn af velli á 87. mínútu í 1-1 jafntefli gegn Kalmar á útivelli en Viðar sem er markahæsti leikmaður deildarinnar komst ekki á blað í leiknum.

Kári Árnason var ekki í leikmannahóp Malmö í dag en Malmö missti af tækifæri til að jafna Norrköping í toppsæti sænsku deildarinnar.

Allir þrír Íslendingarnir voru í byrjunarliði Rosenborg sem vann öruggan 3-1 sigur á Sogndal á heimavelli en Guðmundur Þórarinsson lagði upp eitt marka Rosenborg í leiknum.

Rosenborg komst 3-0 yfir í fyrri hálfleik en Sogndal náði aðeins að laga stöðuna stuttu fyrir leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×