Handbolti

Öruggur sigur á Tékkum og Ísland áfram í milliriðil

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska handboltalandsliðið skipað leikmönnum 18 ára og yngri vann öruggan sjö marka sigur, 32-25, á Tékklandi á EM í Króatíu í dag.

Íslensku strákarnir enduðu í 2. sæti C-riðils og eru komnir áfram í milliriðil. Svíþjóð og Króatía mætast í lokaleik C-riðils í kvöld og það hentar íslenska liðinu betur ef Svíar vinna.

Þá fara Íslendingar með tvö stig inn í millirðil en strákarnir unnu flottan sigur á sænska liðinu, 32-29, á föstudaginn. Í C-riðlinum hittir Ísland fyrir Þýskaland og Serbíu sem urðu í tveimur efstu sætunum í D-riðli.

FH-ingurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson var markahæstur í íslenska liðinu í leiknum í dag með fimm mörk en hann hefur spilað afar vel á EM.

Eftir jafnar upphafsmínútur tóku Íslendingar völdin og leiddu með átta mörkum í hálfleik, 20-12. Sigurinn var aldrei í hættu í seinni hálfleik og strákarnir unnu á endanum sjö marka sigur, 32-25.

Mörk Íslands:

Gísli Þorgeir Kristjánsson 5, Jóhann Kaldal Jóhannsson 4, Alexander Másson 4, Sveinn Andri Sveinsson 4, Elliði Snær Viðarsson 2, Sveinn Jóhannsson 2, Arnar Freyr Guðmundsson 2, Teitur Örn Einarsson 2, Örn Östenberg 2, Pétur Hauksson 2, Kristófer Sigurðsson 1, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 1, Ágúst Emil Grétarsson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×