Enski boltinn

Mourinho: Ótrúlegt að Zlatan hafi aldrei unnið Gullboltann

Kristinn Páll Teitsson skrifar
„Ég er auðvitað gríðarlega ánægður eftir þennan leik. Bournemouth byrjar leiki af krafti en okkur tókst að ráða vel við það,“ sagði Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, sáttur eftir 3-1 sigur Manchester United á Bournemouth í dag.

„Í seinni hálfleik var meira sjálfstraust í liðinu og okkur tókst að stýra leiknum betur. Við gerðum ein mistök og Bournemouth náði að refsa okkur en okkur tókst að halda þetta út.“

Mourinho hrósaði Zlatan Ibrahimovic eftir leikinn en hann skoraði mark í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni.

„Það er ótrúlegt að hann hafi aldrei unnið Gullboltann sem besti leikmaður heims en hann er kominn hingað til að vinna deildina. Honum er sama um einstaklingsverðlaun ef hann vinnur titla,“ sagði Mourinho og hélt áfram:

„Þegar ég hitti leikmannahópinn á fyrsta degi þá mætti ég leikmönnum sem voru óánægðir með stöðuna sem liðið var í. Ég fann það á leikmannahópnum að þeir væru tilbúnir til að snúa við gengi liðsins og vinna leiki og titla en um leið gera stuðningsmennina ánægða.“

Mourinho á ekki von á öðru en að Paul Pogba muni smellpassa inn í liðið en hann gæti snúið aftur í lið Manchester United um næstu helgi eftir fjögur ár í herbúðum Juventus.

„Hann er frábær leikmaður og hann mun leika stórt hlutverk í liðinu okkar. Við þurfum á leikmönnum eins og honum þegar leikjadagskráin verður þéttari með Evrópudeildarleikjum og leikjum í bikarkeppnunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×