Enski boltinn

Zlatan komst á blað í öruggum sigri Manchester United

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Það tók Zlatan Ibrahimovic ekki langan tíma að opna markareikning sinn í ensku úrvalsdeildinni en hann skoraði eitt af þremur mörkum United-manna í 3-1 sigri á Bournemouth.

Zlatan byrjaði leikinn í fremstu víglínu en fyrsta mark leiksins kom  rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Juan Mata nýtti sér mistök í varnarlínu Bournemouth og renndi boltanum í autt netið í annarri tilraun.

Wayne Rooney bætti við öðru marki United-manna með skalla af stuttu færi á 59. mínútu þegar hann stýrði skoti Anthony Martial í netið en fimm mínútum síðar var komið að Zlatan.

Fékk hann boltann 35 metrum frá marki, rak boltann áfram nokkra metra og lét svo vaða af 30 metra færi í bláhornið, óverjandi fyrir Arthur Boruc í marki Bournemouth.

Adam Smith náði að klóra í bakkann fyrir Bournemouth á 69. mínútu en lengra komst Bournemouth ekki og fagnaði Jose Mourinho því sigri í fyrsta leik sínum sem knattspyrnustjóri Manchester United í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×