Enski boltinn

Uppalinn United-maður tryggði City-mönnum stigin þrjú

Paddy McNair væri eflaust til í að gleyma fyrsta leik sínum með Sunderland sem fyrst en hann skoraði sjálfsmark undir lok leiksins og tryggði Manchester City stigin þrjú í 2-1 sigri þeirra bláklæddu.

Þetta var fyrsti leikur Manchester City undir stjórn Pep Guardiola en þetta var sömuleiðis fyrsti leikur Sunderland undir stjórn David Moyes.

Heimamenn fengu sannkallaða draumabyrjun þegar Sergio Agüero kom City-mönnum yfir af vítapunktinum á 3. mínútu eftir að brotið hafði verið á Raheem Sterling innan vítateigsins.

Jermaine Defoe náði að jafna metin tuttugu mínútum fyrir leikslok með snyrtilegu marki. Renndi Jack Rodwell þá boltanum inn á Defoe sem skoraði framhjá Willy Cabarello í marki City-manna.

Á 87. mínútu varð McNair sem kom inn sem varamaður aðeins fjórum mínútum áður fyrir því óláni að skalla fyrirgjöf Jesus Navas í eigið net af stuttu færi.

Hvorugu liði tókst að bæta við marki og fögnuðu City-menn því naumum sigri í fyrsta leik liðsins undir stjórn Pep Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×