Enski boltinn

Gylfi: Vonandi verð ég ánægðari Íslendingurinn eftir leikinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi í leik með Íslandi á EM í sumar.
Gylfi í leik með Íslandi á EM í sumar. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson mætast í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á morgun þegar lið þeirra, Swansea og Burnley, mætast.

Flautað verður til leiks klukkan 14.00, en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport/HD, en spili Jóhann með Burnley verður þetta hans fyrsti alvöru leikur fyrir félagið.

„Við höfum verið að senda hvor öðrum skilaboð undanfarnar vikur. Það verður gaman að spila gegn honum því hann er góður leikmaður og félagi minn," sagði Gylfi í samtali við heimasíðu Swansea.

„Við afrekuðum mikið fyrir Ísland á EM og núna erum við að fara spila gegn hvorum öðrum í ensku úrvalsdeildinni. Vonandi verð ég ánægðari Íslendingurinn á laugardagskvöldið."

Gylfi fór á kostum á síðasta ári með Swansea, en hann var meðal annars kosinn leikmaður ársins hjá stuðningsmönnum og leikmönnum liðsins eftir tímabilið.

„Burnley verða klárir og leikvangurinn verður fullur. Þeir verða spenntir að vera aftur í úrvalsdeildinni og aðalatriðið er að byrja eins og við gerðum í fyrra."

„Ef við náum góðri byrjun þá getur það hjálpað okkur það sem eftir er af tímabilinu," sagði Gylfi sem skoraði ellefu mörk á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×