Enski boltinn

Sissoko bíður eftir símtali frá Real Madrid

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sissoko í leik með Frakklandi í sumar.
Sissoko í leik með Frakklandi í sumar. vísir/getty
Moussa Sissoko, franski miðjumaður Newcastle, vill ganga í raðir stærri félags og bíður spenntur við símann þessa dagana.

Þessi 26 ára gamli miðjumaður hefur spilað 133 leiki fyrir Newcastle, en langar nú að hverfa á braut eftir fall Newcastle í B-deildina.

„Ég vona að Real komi á eftir mér, ég bíð eftir símtali. Ef Real Madrid er áhugasamt verðuru auðvitað ánægður, en í dag er ég leikmaður Newcastle," sagði Sissoko við World Football.

„Ég hef verið hér í þrjú og hálft ár og gefið allt mitt fyrir þetta félag. Ég vil spila stóra leiki og til þess að gera það þarf ég að fara annað."

Sissoko heillaði marga í sumar á Evrópumótinu, þá sérstaklega í úrslitaleiknum gegn Portúgal, þar sem hann var gífurlega kraftmikill og sýndi góða spretti.

„Ég vil spila í úrvalsdeildinni. Ég vil spila fyrir stórt félag sem getur komist í Meistaradeildina. Þess vegna sagði ég að ég vildi fara."

„Ég hef eytt miklum tíma hér og núna er kominn tími til að horfa fram á við. Stuðningsmennirnir verða að skilja stöðu mína, ég vona að þeir geri það og allt verði í lagi," sagði Frakkinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×