Erlent

Ryan segir ummæli Trumps um byssueigendur óviðeigandi grín

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum
Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum nordicphotos/AFP
Paul Ryan, repúblikani og forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sagði í gær að ummæli Donalds Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana, um að fólk sem styður annan viðauka stjórnarskrárinnar gæti komið í veg fyrir að Hillary Clinton myndi hreyfa við viðaukanum næði hún kjöri, væru vanhugsaður og óviðeigandi brandari.

Viðaukinn sem um ræðir fjallar um að Bandaríkjamenn eigi rétt á að bera skotvopn og sögðu margir Trump vera að ýja að því að stuðningsmenn viðaukans og þar með byssueignar gætu komið í veg fyrir skerðingu á þeim rétti með ofbeldi. Hillary Clinton, frambjóðandi demókrata, hefur lengi talað fyrir því að herða þurfi reglur um byssueign.

Trump lét ummælin falla á kosningafundi í Norður-Karólínu fyrr í vikunni. „Hillary vill í raun afnema annan viðaukann. Ef hún fær að velja sér hæstaréttardómara getið þið ekkert gert. En annarsviðaukafólkið gæti kannski gert eitthvað. Ég veit það ekki,“ sagði Trump. Hann vísaði þar til þess að eitt laust sæti er í hæstarétti Bandaríkjanna.

Þá sagði kosningastjóri Clinton ummælin hættuleg. Sá sem hvetti til ofbeldis ætti ekki erindi í forsetaembættið. En Trump varði ummælin á Twitter: „Fjölmiðlar reyna í örvæntingu sinni að draga athyglina frá andstöðu Clinton við stjórnarskrána. Ég sagði að stuðningsmenn annars viðaukans gætu skipulagt sig og kosið einhvern annan en Clinton!“

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×