Enski boltinn

West Ham er hætt að selja sína bestu menn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Payet fagnar síðasta vetur.
Payet fagnar síðasta vetur. vísir/getty
Slaven Bilic, stjóri West Ham, segir að félagið hafi sent út sterk skilaboð í sumar með því að halda Dimitri Payet hjá félaginu.

Payet átti stórkostlegt tímabil með West Ham á síðustu leiktíð og hélt svo áfram að fara á kostum á EM. Í kjölfarið var hann orðaður við Spánarrisana og fleiri félög.

West Ham ætlar sér aftur á móti að vera í slagnum við stóru strákana á nýjum heimavelli en liðið var að flytja á Ólympíuleikvanginn í London.

„Með því að halda Payet hefur félagið sýnt að því er full alvara í því að komast upp á næsta stig,“ sagði Bilic en hann stýrði liðinu í sjöunda sætið í ensku úrvalsdeildinni síðasta vetur. Besti árangur félagsins síðan 2002.

„West Ham hefur verið þekkt fyrir að þurfa að selja sína bestu menn. Menn eins og Frank Lampard, Rio Ferdinand og fleiri. Við höldum Dimi og sýnum öllum að okkur er alvara í að halda áfram á leið okkar upp töfluna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×