Félagið Lindarhvoll hyggst ljúka sölu á skráðum eignum sem ríkinu féllu í skaut við nauðasamninga föllnu bankanna á haustmánuðum. Þá á að selja Lyfju og megnið af öðrum óskráðum eigum félagsins fyrir áramót. Þetta kemur fram í greinargerð fjármála- og efnahagsráðuneytisins um starfsemi Lindarhvols. Lindarhvoll hefur umsjón með eignunum og sölu þeirra fyrir hönd ríkisins.
Ríkið er nú stærsti hluthafinn í Sjóvá og á tæplega 14 prósenta hlut sem er um 2,5 milljarða króna virði miðað við markaðsvirði félagsins auk þess að eiga hlut í skráðu félögunum Símanum og Eimskipum. Ríkið seldi 6,38 prósenta hlut í Reitum á mánudaginn fyrir ríflega 3,9 milljarða króna eftir útboð sem Landsbankinn sá um fyrir hönd ríkisins.
Gert er ráð fyrir því að eftir áramót dragist starfsemi Lindarhvols verulega saman. Þá verði aðeins um virka umsýslu á framseldum eignum að bókfærðu virði um 7,3 milljarðar króna og jafnframt eftirlit með skilyrtum fjársópseignum að bókfærðu virði um 6,6 milljarðar króna. Þá er gert ráð fyrir að Kaupþing muni selja Arion banka á næsta ári en ríkið fær þá hluta af söluverðinu í sinn hlut.