Erlent

Hernaðarlega mikilvægur bær úr höndum ISIS

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá atlögunni í dag.
Frá atlögunni í dag. vísir/epa
Sýrlenskir uppreisnarmenn, dyggilega studdir af tyrkneska hernum og þeim bandaríska úr lofti, hafa náð bænum Jarablus úr klóm ISIS. Sagt er frá meðal annars á BBC og Al Jazeera sem og fleiri miðlum.

Jarablus er sýrlenskur smábær skammt sunnan við landamæri Tyrklands en hernaðarlegt mikilvægi hans er mikið sökum staðsetningar hans. Atlagan að bænum hófst í dögun þegar tyrkneskar herþotur og skriðdrekar, auk sérsveitarmanna, fóru yfir landamærin til Sýrlands. Í yfirlýsingu frá tyrkneska hernum segir að vígamenn ISIS hafi flúið bæinn skömmu síðar.

Ljóst er að markmið Tyrkja var ekki aðeins að hrekja íslamska ríkið á brott heldur einnig að tryggja það að sýrlenskir Kúrdar myndu ekki ná tangarhaldi á bænum. Kúrdar hafa á undanförnum dögum og vikum náð talsverðu landsvæði á sitt vald og óttast Tyrkir að sjálfstæðisbarátta Kúrda, innan landamæra Tyrklands, muni eflast við það.

„Við höfum frelsað Jarablus að fullu,“ segir Ahmed Ottoman, yfirmaður úr röðum uppreisnarmanna, í samtali við Al Jazeera. „Við réðumst til atlögu snemma morguns og tókum fjölda smáþorpa í nágrenni bæjarins. Eftir nokkrar klukkustundir höfðum við umkringt bæinn og ISIS-liðar sáu þann kost vænstan að flýja til al-Bab [bæjar sem enn er á valdi samtakanna].“

Jarablus hafði verið á valdi ISIS í meira en tvö ár en eftir að hafa misst hann standa samtökin aðeins eftir með al-Bab. Fyrr á árinu féllu Kobane og Manbij í hendur Kúrda eftir langa bardaga.


Tengdar fréttir

Tyrkir senda skriðdreka til Sýrlands

Yfirvöld í Tyrklandi hafa heitið því að hreinsa landamæri sín af vígamönnum ISIS og „öðrum hryðjuverkamönnum“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×