Enski boltinn

Carragher um Liverpool: Varnarleikurinn stórt vandamál

Anton Ingi Leifsson skrifar
Carragher segir að sínir menn þurfi að styrkja varnarleikinn.
Carragher segir að sínir menn þurfi að styrkja varnarleikinn. vísir/getty
Jamie Carragher, varnarmaður Liverpool til margra ára og nú spekingur á Sky Sports, segir að hausverkur Liverpool-liðsins sé ennþá varnarleikur liðsins.

Liverpool hefur fengið fimm mörk á sig í fyrstu tveimur leikjum liðsins, en Bítlaborgarliðið tapaði 2-0 fyrir Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley í gær á Turf Moor.

„Varnarleikurinn er stórt vandamál. Þetta var stórt vandamál undir stjórn Brendan Rodgers og það lítur út fyrir að það hafi ekki verið lagfært,” sagði Carragher í leikslok.

„Klopp hafði sumarið núna og styrkti liðin, en mestur peningurinn fór á hinn enda vallarins. Ekki gleyma því að Liverpool fékk á sig þrjú mörk um síðustu helgi og þeir voru aftur slakir varnarlega núna.”

Christian Benteke var seldur fyrir rúmar 30 milljónir punda, samkvæmt heimildum, og telur Carragher að nýta þurfi þann pening í að kaupa varnarmenn áður en glugginn lokar.

„Henderson er ekki varnarsinnaður miðjumaður og Emre Can er eini leikmaðurinn í hópnum sem getur spilað þar því Lucas er uppfyllingarefni.”

„Þú getur talað um vinstri bakvörð því James Milner spilaði þar í gær. Hvort sem þeir fara á markaðinn með Benteke peninginn áður en glugginn lokar verður að koma í ljós,” sagði Carragher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×