Innlent

Formaður Ljósmæðrafélags Íslands: Mjög miður ef konum finnst ljósmæður ekki koma vel fram við sig

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Áslaug Íris Valsdóttir er formaður Ljósmæðrafélags Íslands.
Áslaug Íris Valsdóttir er formaður Ljósmæðrafélags Íslands. Vísir/gva
Áslaug Íris Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segir það mjög miður ef konum finnist ekki vera hlustað á sig við fæðingu. Það sé stefna ljósmæðra sé að mæta hverri konu og sýna konum stuðning og skilning.

Í Kastljósþætti gærkvöldsins sögðu Sigríður Eyrún Friðriksdóttir og Karl Olgeir Olgeirsson frá því þegar sonur þeirra, Nói Hrafn, lést skömmu eftir fæðingu vegna raða mistaka sem upp komu við fæðingu. Þar sögðu þau meðal annars að þeim hafi ekki verið hlustað á þau og áhyggjur þeirra. Í kjölfarið hafa sprottið upp umræður á samfélagsmiðlum þar sem fleiri konur stíga fram og lýsa svipuðu viðmóti ljósmæðra í þeirra garð.

„Mér finnst það mjög miður ef það er línan, að konum finnist ljósmæður ekki koma nógu vel fram við sig. Það er svo sannarlega ekki ætlunin,“ segir Áslaug í samtali við Vísi.

Stefna ljósmæðra að sýna skilning og stuðning

Áslaug segir að mikilvægt sé að hafa í huga að allar fæðingar og allar konur eru mismunandi og að samskiptaörðugleikar geti komið upp.

„Það er auðvitað stefna ljósmæðra að mæta hverri konu þar sem hún er og sýna konum skilning og stuðning og allt það besta. Það er auðvitað það sem ljósmæðrastarfið gengur út á. Hins vegar eru ljósmæður auðvitað mismunandi, konur eru mismunandi, það er ekki alltaf sem kemur vel saman á milli konu og ljósmóður. Það þarf ekki að vera,“ segir Áslaug.

Í þætti Kastljóss sögðu Sigríður og Karl frá því að þau hafi ítrekað viðrað áhyggjur sínar við starfsfólk. Þá hafi þau hafi fengið þau svör að ótrúlegt væri hvað kvenlíkaminn gæti gert. Þeim var sagt að sérfræðingur þyrfti að meta stöðuna, en aldrei var kallað á sérfræðilækni. Áslaug segir það eðlilegt að ljósmæður leggi áherslu á náttúrulega fæðingu en að þær eigi að vera vel þjálfaðar í að koma auga á ef eitthvað sé að fara úrskeiðis.

„Ljósmæður eru mjög góðar í því eðlilega og náttúrulega. En ef þú ert góður í því þá áttu að vera mjög fljótur að sjá þegar hlutir eru að fara úrskeiðis. Og þegar hlutir eru að fara úrskeiðis þá er það á hendi lækna en ekki ljósmæðra. Ljósmæður sjá um eðlilega ferlið, náttúrulega ferlið.“

Áfall ef eitthvað fer úrskeiðis

Áslaug segir gríðarlegt álag á ljósmæðrum. „Það er líka gríðarlegt áfall fyrir ljósmóður þegar eitthvað fer úrskeiðis. Ég er alls ekki að bera það saman við sorg foreldra eða eitthvað þvíumlíkt. En þegar hlutirnir fara ekki eins og þeir gætu best farið, þá er það eiginlega það hryllilegasta sem hver ljósmóðir getur hugsað sér.“

Áslaug segir jafnframt að ekki sé hægt að leggja eina skýra línu með alla skapaða hluti þegar kemur að fæðingum. Hver fæðing sé einstakt ferli.

„Ég held í rauninni að það sé öruggt að segja það að hver einasta ljósmóðir er að reyna að gera sitt besta á hverri stundu. En það mun alltaf vera þannig að einhverjir hlutir fara ekki eins og best væri á kosið. Og það finnst öllum hræðilegt sem að málinu koma.“


Tengdar fréttir

„Af hverju kemur ekki einhver?“

Sigríður Eyrún Friðriksdóttir og Karl Olgeir Olgeirsson eignuðust soninn Nóa Hrafn snemma árs í fyrra. Hann lést skömmu eftir fæðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×