Skoðun

Flugvöllinn þar sem hann er

Getur það verið að yfirvöld þessa lands séu búin að ákveða að íþróttamafían skuli ráða allri nýtingu landsvæða til eigin nota? Svo virðist sem best sé að beita frekju sinni til þessara hluta, án nokkurs samráðs við kóng eða prest. Er ég hér að vísa til flugvallarmálsins margumtalaða. Engu breytir, þótt margítrekað hafi verið á það bent að hér sé um mikið öryggismál fyrir landsbyggðina að ræða. Flugvöllurinn skal lagður af fyrir fullt og allt. Sennilega undir enn eitt íþróttamannvirkið. Er ekki komið nóg af slíku? Hvað er fegurra en lítill, nettur flugvöllur í stórborginni? Sem í mörgum öðrum borgum, vítt og breitt um heiminn. Svo ekki sé nú enn einu sinni bent á hve slíkt mannvirki er mikið öryggisatriði fyrir landsmenn? Hefur borgarstjórnin engar áhyggjur af slíkum yfirgangi? Ekki nóg með það, heldur skal svona í leiðinni eyðileggja einhverja fegurstu náttúruperlu sem enn þá er til á miðborgarsvæðinu, það er Vatnsmýrin. Þarna er fagurt fugla- og skordýralíf. Verði þetta reyndin að Vatnsmýrin verði þurrkuð upp, vil ég benda borgarstjórninni á, að Vatnsmýrin er vatnsforðabúr Reykjavíkurtjarnar. Er kannski komin á blað sú hugmynd að sjálfsagt sé að fylla upp í Tjörnina og hefja þar sölu byggingarlóða? Byggja þar jafn fallega, eða hitt þó heldur, steinkumbalda í líkingu við Ráðhúsið sem kúrir nú með ljótleika sinn í norðvesturhorni Tjarnarinnar, sem aldrei hefði átt að verða. Hafa náttúruverndarsamtök ekkert um þetta að segja, ég bara spyr?



Skoðun

Sjá meira


×