Erlent

Þúsundir flýja mikla skógarelda á Spáni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Talið er að eldarnir hafi kviknað af mannavöldum.
Talið er að eldarnir hafi kviknað af mannavöldum. Vísir/EPA
Slökkviliðsmenn á Spáni berjast nú við gríðarlega skógarelda sem geisa nú nærri Valencia. Þúsundir íbúa og ferðamanna hafa þurft að yfirgefa svæðið en illa gengur að ráða niðurlögum eldsins.  Ljóst er að eignatjón er mikið.

Um tvö hundruð slökkviliðsmenn koma að aðgerðum en yfirvöld segja að eldarnir hafi kviknað af mannavöldum. Í gær voru slökkviliðsmenn nærri búnir að ná tökum á eldunum. Þeir blossuðu þó upp að nýju eftir sólsetur þegar hætt var að notast við flugvélar við slökkvistarfið.

Hitabylgja ríður nú yfir svæðið og er gert ráð fyrir allt að 40 stiga hita og lítilli úrkomu á næstu dögum. Draga mun þó úr vindi og vonast slökkviliðsmenn til þess að það muni auðvelda slökkvistarfið.  Fjöldi bygginga hefur orðið fyrir barðinu á eldunum en engar fregnir hafa borist af manntjóni.

Eldarnir geisa nærri þekktum ferðamannastöðum á borð við Benidorm og Javea og því hefur mikill fjöldi ferðamanna þurft að leita sér skjóls vegna eldanna.

/



Fleiri fréttir

Sjá meira


×