Erlent

Níu ára dreng hampað sem hetju eftir að hafa bjargað bróður sínum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hóf endurlífgun eftir að bróðir hans féll ofan í sundlaug.
Hóf endurlífgun eftir að bróðir hans féll ofan í sundlaug. Vísir/Getty
Níu ára dreng í Þýskalandi er nú hampað sem hetju eftir að hafa bjargað lífi tveggja ára gamals bróður síns sem féll ofan í sundlaug. Hóf hann endurlífgun og hringdi í neyðarlínunna.

Drengirnir voru í pössun hjá ömmu sinni í bænum Korbach í Þýskalandi. Þegar amman fór inn til þess að finna til bleyju á yngri bróðurinn Rudolf fór hann út í garð þar sem hann féll í garðsundlaugina.

Drengurinn var hættur að anda þegar sá eldri, hinn níu ára gamli Marcus, náði taki á honum og kom honum upp á sundlaugarbakkann með hjálp ömmu sinnar. Hringdi hann í neyðarlínuna vegna þess að amman, rússnesk að uppruna, talaði illa þýsku.

Með hjálp neyðarlínunnar fékk Marcus leiðbeiningar um hvernig ætti að hefja endurlífgun og beitti hann hjartahnoði og svokallaðri munn við munn aðferð á bróður sinn.

Var Rudolf byrjaður að anda á ný þegar bráðaliðar mættu á svæðið en var hann fluttur á sjúkrahús nærri Frankfurt. Segja bráðaliðar ljóst að Marcus hafi unnið þrekvirki miðað við aldur. Reiknað er með að Rudolf muni ná sér að fullu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×