Enski boltinn

Webb um myndbandstæknina: Viljum ekki fjarstýrða dómara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Webb dæmdi bæði úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu og HM árið 2010.
Webb dæmdi bæði úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu og HM árið 2010. vísir/getty
Howard Webb, sem var einn fremsti fótboltadómari heims á sínum tíma, geldur varhug við notkun myndbandsupptaka við dómgæslu og segir hættu á því að dómurum verði fjarstýrt.

Í vináttulandsleik Ítalíu og Frakklands í Bari á fimmtudaginn var myndbandsupptaka notuð í fyrsta sinn í leik á vegum FIFA. Hollendingurinn Björn Kuipers dæmdi leikinn og fékk hjálp frá aðstoðarmönnum sínum sem horfðu á leikinn í sjónvarpstrukk fyrir utan völlinn.

Tilraunin þótti heppnast vel og meðal þeirra sem lýstu yfir ánægju með hvernig til tókst var Gianni Infantino, forseti FIFA, en hann er mikill stuðningsmaður þess að myndbandsupptökur séu notaðar við dómgæslu.

Webb er ekki jafn hrifinn af þessari þróun og segir hætt við því að hlutverk dómara minnki.

„Þegar þessi hugmynd kom fyrst fram var talað um að þetta ætti að hjálpa til við úrskurða um atvik sem dómarinn sá ekki en svo er ekki lengur,“ sagði Webb.

„Afstaða FIFA er að breytast og verið er að prófa myndbandsupptökur. Að sjálfsögðu eigum við að fagna öllu sem hjálpar dómurunum að taka réttar ákvarðanir en við verðum að fara varlega.

„Ef hver einasta ákvörðun er skoðuð á myndbandi verða dómarar á vellinum lítið annað en fjarstýrðir dómarar.“

Myndbandstæknin hefur þegar verið prófuð í Bandaríkjunum og fastlega má búast við því að fleiri lönd fylgi í kjölfarið. Nú síðast lýstu Spánverjar yfir áhuga á að prófa myndbandstæknina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×