Erlent

Krefjast fundar með breskum yfirvöldum vegna nýlegra árása á Pólverja

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Mörg hundruð manns minntust Arek Jozwik sem var myrtur í bænum Harlow hinn 27. ágúst síðastliðinn.
Mörg hundruð manns minntust Arek Jozwik sem var myrtur í bænum Harlow hinn 27. ágúst síðastliðinn. vísir/epa
Þrír pólskir ráðherrar hyggjast á næstu dögum funda með ráðamönnum í Bretlandi vegna árása á tvo pólska karlmenn í bænum Harlow í Essex í morgun. Lögregla segir að líklega sé um hatursglæpi gagnvart útlendingum að ræða.

Mennirnir tveir höfðu verið viðstaddir fjölmenna minningarathöfn og -göngu til heiðurs samlanda sínum sem var myrtur í bænum í síðasta mánuði. Maðurinn var barinn til bana. Sex ungmenni voru handtekin í tengslum við árásina, en hefur nú verið sleppt úr haldi.

Fimm menn réðust á mennina tvo með þeim afleiðingum að annar þeirra nefbrotnaði og hinn fékk skurð á höfuðið. Ekki er talið að þessi árás tengist morðinu í síðasta mánuði.

Bresk yfirvöld segjast taka árásunum alvarlega og munu fjölga lögreglumönnum á götum úti í Harlow næstu daga.

Ráðherrarnir þrír; Witold Waszczykowski utanríkisráðherra,  Zbigniew Ziobro dómsmálaráðherra og Mariusz Blaszczak innanríkisráðherra fóru í dag fram á fund með breskum yfirvöldum, en búast má við að fundurinn verði haldinn á allra næstu dögum. Þá hefur forsætisráðherra Póllands, Beata Szydlo, óskað eftir samtali við Thereseu May, forsætisráðherra Bretlands. 

Lögregla telur líklegt að um hatursglæpi hafi verið að ræða.vísir/epa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×