Erlent

Skipa sjúklingum að létta sig

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Ákvörðunin þykir ala á fitufordómum.
Ákvörðunin þykir ala á fitufordómum. Vísir/Getty
Heilbrigðisyfirvöld í Vale of York héraði í Bretlandi hafa ákveðið að skilyrða sjúklinga í ofþyngd sem þarfnast aðgerðar til þess að létta sig.

Ef sjúklingunum tekst ekki að lækka BMI-stuðul sinn niður í 30 eða minna, eða missa 10% af líkamsþyngd sinni, verður þeim neitað um aðgerð og þurfa þeir að bíða í allt að eitt ár eftir afgreiðslu. Þetta kemur fram í grein The Guardian.

Aðgerðir vegna bráðatilvika falla þó ekki undir ákvæðið heldur eingöngu aðgerðir vegna kvilla sem ekki teljast lífshættulegir.

Mismunað vegna holdafars

Málið hefur vakið upp hörð viðbrögð í Bretlandi og þykir reglugerðin ala á fitufordómum og mismuna fólki á grundvelli holdafars.

Shaw Somers, skurðlæknir frá Portsmouth, sagði í viðtali við BBC að þrátt fyrir að ákvörðunin myndi spara heilbrigðisyfirvöldum einhverjar fjárhæðir fæli hún í sér mismunun í garð sjúklinga í ofþyngd enda væri offita sjúkdómur.

Somers telur að sjúklingarnir sem um ræðir séu yfirleitt að reyna hvað þeir geta til þess að létta sig. Að neita sjúklingum um meðferð vegna þyngdar þeirra, í stað þess að bjóða þeim aðstoð við að létta sig, telur hann vera á par við það að mismuna hluta þjóðarinnar vegna litarháttar eða trúarbragða.

Í yfirlýsingu heilbrigðisyfirvalda héraðsins segir að ákvörðunin sé tekin vegna hagræðingarsjónarmiða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×