Erlent

Líkamsleifar Jacobs fundnar 27 árum eftir að hann hvarf

Atli Ísleifsson skrifar
Hvarfið vakti gríðarlega athygli í Bandaríkjunum og hefur drengurinn orðið að einni helstu táknmynd týndra barna í ríkinu. Á myndinni má sjá Jacob og móður hans, Patty.
Hvarfið vakti gríðarlega athygli í Bandaríkjunum og hefur drengurinn orðið að einni helstu táknmynd týndra barna í ríkinu. Á myndinni má sjá Jacob og móður hans, Patty. Vísir/Getty
Lögregla í Bandaríkjunum hafa fundið líkamsleifar Jacobs Wetterling sem hvarf skyndilega í október 1989, þá ellefu ára gamall.

Jacob var rænt af grímuklæddum og vopnuðum manni þar sem hann hjólaði ásamt bróður sínum og vini á sveitavegi skammt frá heimili sínu fyrir utan Minneapolis í Minnesota á októberkvöldi 1989. Maðurinn beindi skotvopni að bróður Jacobs og vini og skipaði þeim að halda sig fjarri áður en hann svo ók á brott með Jacob.

Málið vakti gríðarlega athygli og hefur drengurinn orðið að einni helstu táknmynd týndra barna í Bandaríkjunum á síðustu árum. Þrátt fyrir umfangsmikla lögreglurannsókn þá hefur hvarf hans reynst ráðgáta og ekkert vitað um hvað varð um hann, þar til nú.

Vísir/Getty
Lögregla fann í gær líkamsleifar Jacobs eftir ábendingu frá manni sem lengi hefur verið bendlaður við hvarf drengsins. Rannsókn hefur nú leitt í ljós að raunverulega sé um lík Jacobs að ræða.

Maðurinn, sem nú er 53  ára, var yfirheyrður skömmu eftir hvarf drengsins, en hann er nú í haldi vegna gruns um hafa haft mikil magn barnakláms í fórum sínum. Bandarískir fjölmiðlar segja ekki ljóst hvað hafi orðið til þess að hann gaf lögreglu upplýsingar um hvar líkamsleifar Jacobs hafi verið að finna.

Foreldrar drengsins hafa alla tíð haldið í vonina að sonur þeirra myndi finnast á lífi. „Við erum orðlaus,“ skrifaði móðir Jacobs á Twitter-síðu sinni í gær.

Eftir að Jacob var rænt á sínum tíma börðust foreldrar hans ötult fyrir því að lögum um kynferðisafbrotamenn yrði breytt þannig að ríki þurfi að halda skrá yfir alla þá sem hafa verið dæmdir fyrir kynferðisbrot. Bandaríkjaþing samþykkti lög þessa efnis árið 1994.

Að neðan má sjá sjónvarpsfrétt CBS í Minnesota frá því í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×