Erlent

Handtekinn vegna glúkósa

Sænska lögreglan segist ekki vita til þess að mistök sem þessi hafi verið gerð. Þrúgusykri er oftar en ekki blandað við amfetamín eða kókaín.
Sænska lögreglan segist ekki vita til þess að mistök sem þessi hafi verið gerð. Þrúgusykri er oftar en ekki blandað við amfetamín eða kókaín. mynd/sænska lögreglan
Sænskur karlmaður var á dögunum hnepptur í gæsluvarðhald eftir að nokkrir pokar með hvítu efni fundust í bíl hans. Bráðabirgðaprófanir leiddu í ljós að um hafi verið að ræða amfetamín og viðurkenndi maðurinn við yfirheyrslur að hafa geymt lítið magn af amfetamíni í bílnum.

Maðurinn dró þó aðeins í land með sögu sína nokkru síðar og sagðist einungis hafa verið með glúkósa, eða þrúgusykur, í bílnum. Efnin voru send til frekari rannsókna og í ljós kom að saga mannsins var sönn og var honum því sleppt úr haldi.

Sænska lögreglan segir í samtali við þarlenda fjölmiðla ekki vita til þess að mál sem þessi hafi komið upp áður. Bráðabirgðaprófanirnar teljist mjög öruggar og að alltaf eigi að vera hægt að treysta á þær. Hún baðst jafnframt afsökunar á málinu.

Í sænskum fjölmiðlum segir að ekki hafi fengist upplýsingar um hversu lengi maðurinn hafi þurft að sæta gæsluvarðhaldi né hvers vegna maðurinn hafi breytt upphaflegum framburði sínum. Þá kemur ekki fram í hvað maðurinn ætlaði að nota þrúgusykurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×