Erlent

Kannabismarkaður Kristjaníu rifinn niður eftir árásina

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Íbúar Kristjaníu rífa niður kannabissölubása á Pusher-stræti.
Íbúar Kristjaníu rífa niður kannabissölubása á Pusher-stræti. Nordicphotos/AFP
Íbúar fríríkisins Kristjaníu í Danmörku rifu í gær kannabissölubása á Pusher-stræti, göngugötu sem fræg er fyrir opna sölu kannabisafurða. Lögregla kallaði á fimmtudag eftir slíkum aðgerðum í kjölfar skotárásar á strætinu. 25 ára bosnískættaður Dani skaut þá tvo lögreglumenn og einn ferðamann. Árásarmaðurinn lést af sárum sínum í gær en eftir að hann flúði vettvang hafði lögregla upp á honum, til skothríðar kom og varð árásarmaðurinn fyrir skoti. Annar lögreglumannanna liggur enn á gjörgæslu.

Danska ríkissjónvarpið (DR) sýndi frá því þegar um þúsund íbúar Kristjaníu mættu á Pusher-stræti með sagir, borvélar og kúbein til þess að taka sölubásana niður. Risenga Manghezi, talsmaður íbúa, sagði í samtali við DR að niðurrifið væri mikilvægt. „Það er mikilvægt að gera þetta í dag og hugsa til særða lögreglumannsins. En við getum því miður ekki tryggt að básar sem þessir rísi ekki á ný,“ sagði Manghezi.

„Við getum ekki tryggt að básarnir rísi ekki á ný. Til þess þörfnumst við hjálpar frá öllum Dönum. Ef þið styðjið Kristjaníu þá hættið þið að kaupa kannabisið ykkar hér,“ segir í fréttatilkynningu sem Manghezi sendi út í gær. Þar fordæmir hann einnig kannabismarkaðinn og segir hann glæpsamlegan, enda er sala á kannabisi ólögleg í Danmörku.

Hulda Mader, annar talsmaður íbúa, sagði í viðtali við DR að mjög fáar reglur giltu í Kristjaníu. „Ein þeirra er engin vopn. Önnur er ekkert ofbeldi. Þessi árás var kornið sem fyllti mælinn,“ sagði Mader. „Það voru allt of margir básar og allt of margir utanaðkomandi seljendur sem við þekktum ekki. Þeir voru grímuklæddir og Kristjanía skipti þá engu máli,“ bætti Mader við.

Talsmenn Amaq, áróðursdeildar hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki, sögðu árásarmanninn í gær hafa verið einn af hermönnum þeirra. Lögregla hafði áður greint frá því að sönnunargögn bentu til þess að maðurinn væri fylgjandi málstað Íslamska ríkisins, þó væri ósannað að það væri orsök árásarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×