Erlent

Pizza meira hvetjandi en bónusgreiðslur

Birta Svavarsdóttir skrifar
Rannsókn við Duke háskólann leiddi í ljós að pizza er mun áhrifameiri hvatning heldur en peningar.
Rannsókn við Duke háskólann leiddi í ljós að pizza er mun áhrifameiri hvatning heldur en peningar. Getty/Vísir
Hvað myndi helst drífa þig áfram í vinnunni; fjárhagsleg aukaþóknun, pizza eða hrós frá yfirmanninum? Ef marka má nýlega tilraun sem framkvæmd var af Dan Ariely, prófessor í sálfræði við Duke háskólann í Bandaríkjunum, þá er pizza og hrós mun líklegra til að hvetja til betri árangurs starfsmanna en aukaþóknun.

Í byrjun vikunnar sendi Ariely skilaboð til nokkurra hópa starfsmanna í verksmiðju í Ísrael, þar sem hverjumhóp voru boðnar mismunandi verðlaun fyrir vel unnin störf yfir vikuna.

Einum hóp þýðisins var lofuð bónusgreiðsla upp á þrjátíu dollara, eða um 3500 krónur, annar hópur átti að fá skilaboð frá yfirmanni sínum í lok vikunnar með þökkum fyrir vel unnin störf, en sá þriðji fékk gjafabréf upp á pizzu. Fjórði hópurinn fékk svo engin skilaboð eða loforð um verðlaun.

Í byrjun vikunnar virtist pizzan hafa bestu áhrifin á framleiðslu starfsmanna, en afköst þeirra jukust um 6,7 prósent. Svipað var upp á teningnum hjá þeim starfsmönnum sem lofað hafði verið klappi á bakið, en afköst þess hóps fóru upp um 6,6 prósent. Afköst þeirra sem lofað hafði verið aukagreiðslu jukust aftur á móti bara um 4,9 prósent.

Niðurstöðurnar komu á óvart, en í lok vikunnar reyndist sá hópur sem fékk aukagreiðsluna hafa minnkað afköst sín talsvert, eða um 6,5 prósent. Þeir sem hlutu engin verðlaun stóðu sig meira að segja betur. Bestu launin reyndust vera hrósið, en pizzan fylgdi þar fast á eftir.

Fjallað var um þessa áhugaverðu tilraun á vef Daily Mail.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×