Erlent

Ellefu látnir eftir sjálfsvígsárás í Pakistan

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn sprengdi sig í loft upp við dómstól í borginni Mardan.
Maðurinn sprengdi sig í loft upp við dómstól í borginni Mardan. vísir/afp
Að minnsta kosti ellefu eru látnir og þrjátíu særðir eftir sjálfsvígsársás í borginni Mardan í norðurhluta Pakistans í nótt. Árásarmaðurinn er sagður hafa kastað handsprengju inn í dómstól í borginni skömmu áður en hann sprengdi sjálfan sig í loft upp.

Almennir borgarar, lögmenn og lögreglumenn eru á meðal hinna látnu, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Á sama tíma gerðu fjórir menn tilraun til sjálfsvígsárása í hverfi kristinna rétt hjá borginni Peshawar, en voru skotnir af lögreglu áður en þeir létu til skarar skríða. Ekki er vitað hverjir eiga sök á árásunum, en vígamenn hafa að undanförnu beint spjótum sínum að lögfræðingum. Átján lögmenn féllu í árásum í síðasta mánuði, en hryðjuverkahópurinn Jamaat-ul-Ahrar hefur lýst ábyrgð á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×