Enski boltinn

Wilshere var á leiðinni til Roma þar til Bournemouth opnaði veskið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jack Wilshere verður mögulega í fallbaráttunni í vetur.
Jack Wilshere verður mögulega í fallbaráttunni í vetur. vísir/getty
Jack Wilshere, landsliðsmaður Englands í fótbolta, átti ein af óvæntustu félagaskiptunum á lokadegi félagaskiptagluggans en hann fór þá á láni til Bournemouth sem hélt sæti sínu sem nýliði á síðustu leiktíð.

Samkvæmt frétt Daily Mail var ekki fyrsti kostur hjá Wilshere að fara til Bournemouth heldur vildi hann fara til Roma á Ítalíu. Það stefndi allt í að hann færi til ítölsku höfuðborgarinnar eftir viðræður við Franco Baldini sem er ráðgjafi Rómverja.

Þrátt fyrir að vera ekki viss um mikinn spiltíma hjá Roma sem hefur á að skipa sterkri miðju var Wilshere staðráðinn í að fara þangað en Arsenal kom í veg fyrir það. Ástæðan var fjárhagslegs eðlis.

Crystal Palace, Bournemouth, Roma og AC Milan lögðu öll fram lánstilboð í enska landsliðsmanninnn og eftir að fara yfir þau öll ákvað Arsenal að taka tilboði Bournemouth sem opnaði veskið upp á gátt til að landa Wilshere.

Eddie Howe, knattspyrnustjóri Bournemouth, vildi ólmur fá leikmanninn í sínar raðir þannig félagið borgaði Arsenal tvær milljónir punda fyrir leiguna og bauðst til að taka yfir allan launapakka Wilshere út tímabilið en hann fær 80.000 pund á viku.

Peningarnir eru svo miklir í ensku úrvalsdeildinni eftir nýja sjónvarpssamninginn að lið sem er nýkomið upp í deildina og spilar á 10.000 manna leikvangi getur boðið svona upphæðir á meðan ítalski risinn þurfti að bakka út.

Wilshere spilar væntanlega sinn fyrsta leik fyrir Bournemouth um þarnæstu helgi þegar það tekur á móti West Bromwich Albion en liðið er án sigurs með eitt stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar.


Tengdar fréttir

Arsenal tilbúið að lána Wilshere

Arsenal er tilbúið að leyfa Jack Wilshere að fara á láni til að fá meiri spiltíma. Þetta herma heimildir Sky Sports.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×