Erlent

Öflugur skjálfti reið yfir Norðurey Nýja Sjálands

Birgir Olgeirsson skrifar
Íbúar á Norðurey fundu vel fyrir skjálftanum en engar fregnir hafa borist af alvarlegum skemmdum.
Íbúar á Norðurey fundu vel fyrir skjálftanum en engar fregnir hafa borist af alvarlegum skemmdum. Vísir/EPA
Öflugur jarðskjálfti skók austurströnd Norðureyjar Nýja Sjálands á áttunda tímanum í kvöld. Yfirvöld hafa beðið íbúa í Tologo-flóa að yfirgefa heimili sín eftir að jarðskjálfti 7,1 reið yfir en upptök hans voru 169 kílómetra norðaustur af Gisborne.

Þeir sem búa á strandsvæðum hafa verið beðnir um að koma sér á hærri staði. Skjálftinn setti af stað flóðbylgju sem virðist hafa verið með öllu hættulaus en hún er talin hafa verið um 21 sentímetri á hæð.

Íbúar á Norðurey fundu vel fyrir skjálftanum en engar fregnir hafa borist af alvarlegum skemmdum. Árið 2011 varð mikil eyðilegging í bænum Christcurch á Suðurey Nýja Sjálands þegar skjálfti upp 6,3 reið yfir en 185 fórust í honum. Á hverju ári mælast um 15 þúsund jarðskjálftar á Nýja Sjálandi en um 150 þeirra eru nógu stórir þannig að mannfólk finni fyrir þeim. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×