Enski boltinn

Þrettán úrvalsdeildarfélög keyptu leikmann fyrir metfé í sumarglugganum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Eins og fjallað var um á Vísi fyrr í dag keyptu félögin í ensku úrvalsdeildinni leikmenn fyrir rúman milljarð punda í félagskiptaglugganum sem lokaði í gær.

Alls eyddu félögin 1,165 milljarði punda sem er talsvert bæting frá sumarglugganum í fyrra. Þá settu félögin met með því að kaupa leikmenn fyrir 870 milljónir punda.

Þrettán af 20 félögum í ensku úrvalsdeildinni keyptu leikmenn fyrir metfé í sumarglugganum í ár.

Manchester United gerði sem frægt er Paul Pogba að dýrasta leikmanni allra tíma þegar félagið greiddi Juventus 89,3 milljónir punda fyrir hann.

Fimm félög borguðu metfé fyrir leikmenn á lokadegi félagaskiptagluggans í gær.

Tottenham Hotspur borgaði 30 milljónir punda fyrir Moussa Sissoko en Lundúnaliðið hreinlega stal honum fyrir framan nefið á Everton.

Leicester City sló eyðslumetið þrívegis í félagaskiptaglugganum, síðast í gær þegar félagið keypti alsírska framherjann Islam Slimani frá Sporting Lissabon fyrir 29 milljónir punda. Leicester var áður búið að greiða metfé fyrir Nampalys Mendy (13 milljónir punda) og Ahmed Musa (16,6 milljónir punda).

Sunderland pungaði út 13,6 milljónum punda fyrir gabonska miðjumanninn Didier N'Dong, nýliðar Hull City greiddu 12,5 milljónir punda fyrir Ryan Mason og aðrir nýliðar, Burnley, borguðu 10,5 milljónir punda fyrir írska landsliðsmanninn Jeff Hendrick.

Moussa Sissoko er dýrasti leikmaður í sögu Tottenham Hotspur.vísir/getty
Þessi 13 félög keyptu leikmann fyrir metfé í sumarglugganum í ár:

Manchester United: Paul Pogba, 89,3 milljónir punda frá Juventus

Tottenham Hotspur: Moussa Sissoko, 30 milljónir punda frá Newcastle United

Leicester City: Islam Slimani, 29 milljónir punda frá Sporting Lissabon

Crystal Palace: Christian Benteke, 27 milljónir punda frá Liverpool

West Ham United: André Ayew, 20,5 milljónir punda frá Swansea City

Southampton: Sofiane Boufal, 16 milljónir punda frá Lille

Swansea City: Borja Bastón, 15,5 milljónir punda frá Atlético Madrid

Bournemouth: Jordon Ibe, 15,3 milljónir punda frá Liverpool

Sunderland: Didier N'Dong, 13,6 milljónir punda frá Lorient

West Brom: Nacer Chadli, 13 milljónir punda frá Tottenham

Watford: Isaac Success, 12,75 milljónir punda frá Granada

Hull City: Ryan Mason, 12,5 milljónir punda frá Tottenham

Burnley: Jeff Hendrick, 10,5 milljónir punda frá Derby County




Fleiri fréttir

Sjá meira


×