Enski boltinn

Mkhitaryan tæpur fyrir fyrsta Manchester-slag tímabilsins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Henrikh Mkhitaryan meiddist.
Henrikh Mkhitaryan meiddist. vísir/getty
Henrikh Mkhitaryan, leikmaður Manchester United, er tæpur fyrir fyrsta Manchester-slag leiktíðarinnar sem fram fer um aðra helgi.

Mkhitaryan meiddist á hné eftir samstuð við Marek Suchy í vináttulandsleik Armeníu og Tékklands. Hann var tekinn af velli og óvíst er hversu alvarleg meiðslin eru.

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, vonast væntanlega eftir því að Armenar hafi tekið Mkhitaryan af velli til öryggis því þeir eiga leik gegn Danmörku í undankeppni HM 2018 um helgina.

Mkhitaryan hefur ekki enn byrjað leik fyrir United en komið inn á sem varamaður í öllum þremur leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni til þessa. Hann spilaði vel í 1-0 sigrinum gegn Hull um síðustu helgi þar sem hann kom snemma inn á í seinni hálfleik.

Beðið er eftir fyrsta Manchester-slag tímabilsins með mikilli eftirvæntingu en þar mætast erkifjendurnir José Mourinho og Pep Guardiola sem elduðu grátt silfur saman sem stjórar spænsku risanna Real Madrid og Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×